Michael D. Cohen, sem starfað hefur sem lögmaður Trump í fjölda ára, á upptöku þar sem forsetinn ræðir greiðslur til Playboy-fyrirsætu sem segist hafa átt í ástarsambandi við Bandaríkjaforsetann. Upptakan sem um ræðir var tekin upp tveimur mánuðum fyrir forsetakosningarnar 2016.
Sjá einnig: Playboy-fyrirsæta í mál til að geta tjáð sig um Trump
Alríkislögreglan í Bandaríkjunum lagði hald á upptökuna í ár þegar þeir gerðu leit á skrifstofu Cohen. Þá rannsakar dómsmálaráðuneytið aðkomu hans í málum þar sem mútugreiðslur voru notaðar til þess að þagga niður í konum sem bjuggu yfir vandræðalegum sögum af Trump í aðdraganda forsetakosninganna og hvort þær brjóti gegn lögum.
Upptakan var gerð án vitundar Trump og vilja sumir meina að honum stafi ógn af Cohen. Aðferðafræði hans og tilraunir til að halda einkalífi Trump leyndu hafa löngum þótt vafasamar og virðist Cohen vera tilbúinn til þess að starfa meira með saksóknurum enn áður, sem gæti komið forsetanum í vandræði.
Rudolph Giuliani, persónulegur lögfræðingur Trump, staðfesti að upptakan væri til og að hann ræddi greiðslur til fyrirsætunnar. Hann sagði upptökuna vera um tveggja mínútna langa og að forsetinn hafði ekki gert né sagt neitt saknæmt. Þá sagði hann Trump hafa ráðlagt Cohen að skrifa frekar ávísun en borga með reiðufé, svo hægt væri að skrásetja greiðsluna betur.
Lögfræðingur Cohen vildi ekki tjá sig um málið, en hann og samstarfsmenn hans tilkynntu upptökuna til starfsmanna Trump þegar þeir fóru yfir hvað var lagt hald á við húsleit á skrifstofu Cohen.
Fyrirsætan sjálf, Karen McDougal, segist hafa átt í árslöngu ástarsambandi við forsetann árið 2006, stuttu eftir að sonur hans og Melaniu Trump fæddist.
Sjá einnig:Playboy-fyrirsæta fær loks að segja sannleikann um Trump
McDougal seldi sögu sína til The National Enquirer fyrir rúmlega 15 milljónir króna, sem birti aldrei söguna. Stjórnarmaður fyrirtækisins sem á The National Enquirer er góðvinur Trump og sakar McDougal Cohen um að hafa tekið þátt í kaupunum á sögunni til þess að hún yrði aldrei birt.
