Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, óskaði eftir því á fundi með samninganefndum ríkisins og ljósmæðra að fá að leggja fram miðlunartillögu en kjaranefnd ljósmæðra hafnaði því.
Hefðu samninganefndirnar samþykkt að ríkissáttasemjari fengi að leggja fram miðlunartillögu hefði annars vegar þurft að samþykkja hana hjá fjármálaráðuneytinu og hins vegar af félagsmönnum í Ljósmæðrafélaginu.
Lagt til að ágreiningur um launasetningu færi í gerðardóm
Í tillögunni fólst annars vegar kjarasamningur sem falið hefði í sér sömu hækkanir og samningur sem ljósmæður felldu í byrjun sumars. Hins vegar var lagt til að ágreiningi um launasetningu ljósmæðra yrði vísað til gerðardóms.„Þarna er um skammtímasamning að ræða en um leið er ákveðin vinna sett í gang vegna launasetningarinnar og mismunar á milli stofnana,“ segir Katrín og bætir við:
„Ég hefði viljað sjá þessa tillögu ganga til atkvæða hjá félagsmönnum í Ljósmæðrafélaginu.“
Fjórði í yfirvinnubanni
Yfirvinnubann ljósmæðra hefur nú verið í gildi í tæpa þrjá sólarhringa. Þá hefur fjöldi ljósmæðra sagt upp störfum á Landspítalanum og tóku uppsagnir tólf þeirra gildi um síðustu mánaðamót.Vegna þessa hefur neyðarástand skapast á spítalanum. Hafa stjórnendur hans því ekki aðeins gripið til aðgerðaáætlunar heldur var í dag meðgöngu- og sængurlegudeild lokað auk þess sem fyrstu ómskoðanir þungaðra kvenna, sem jafnan er gerð á 12. viku, falla niður.