Hlutabréfverð í N1 hefur hækkað umtalsvert frá opnun markaða í morgun. Það sem af er degi hafa bréfin hækkað um 11,5 prósent en viðskipti með bréfin hafa numið næstum 500 milljónum króna í dag.
Hækkunin er rakin til ákvörðunar Samkeppniseftirlitins að heimila kaup N1 á Festi, sem rekur meðal annars Krónuna og Elko. Greint var frá ákvörðuninni í gærkvöldi, eftir að búið var að loka fyrir hlutabréfaviðskipti dagsins.
Hluturinn í N1 er nú verðmetinn á rúmar 116,5 krónur, en hann fór hæst í 145 krónur um miðjan febrúar í fyrra.
Þá hafa bréfin í Högum einnig hækkað í morgun um næstum 6,5 prósent. Ætla má að ákvörðun Samkeppeniseftirlitsins hafi aukið tiltrú fjárfesta á að samruni Haga og Olíuverzlunar Íslands, sem fjallað hefur verið um að undanförnu, verði að veruleika.
