Skoðun

Bitglaðir hundar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Á dögunum birtist svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um hve oft fólk hefur leitað á heilbrigðisstofnanir til að fá meðferð við hundsbiti.

Sjálfur hef ég ekki farið varhluta af þeim skepnum. Ef minni mitt bregst ekki þá hef ég verið bitinn alls níu sinnum af hundum. Óbermin virðast hafa sérstaka óbeit á mér og leggja stundum lykkju á leið sína til þess eins að læsa tönnum sínum í mig.

Til að mynda var ég eitt sinn á gangi gegnum Klambratún þegar slíkt kvikindi kom í loftköstum til þess eins að narta í mig. Öðru sinni, þegar ég starfaði á dekkjaverkstæði, var ég að bera felgur fram hjá bíl þegar voffi stakk höfðinu út um opinn glugga og nartaði í öxlina á mér. Sár mín af þessum sökum hafa verið eins og hvert annað hundsbit og því ekki með í tölum ráðherra. En afleiðingin er sú að mér er meinilla við þessar úrkynjuðu verur og vil sem minnst af þeim vita.

Fordómar mínir gagnvart hundum eru þó smámunir við hlið fordóma minna í garð hundaeigenda. Þar er fámennur hópur svartra sauða sem telur að hundurinn sé alltaf í rétti. Einn slíkur hótaði til að mynda málsókn vegna fréttar af bitóðum hundi á Dalvík. Myndin sem fylgdi með væri af hundinum hans og væri af hundasýningu í Mosfellsbæ (myndin var frá Tórínó) og birting hennar væri að sverta „mannorð“ dýrsins! Stundum grunar mig að sniðmengi þessa hóps og foreldra eineltisgerenda sé nokkuð stórt.

Það má fylgja með að markmið þessa pistils er lúmskt vinnustaða­grín. Ég er nefnilega farinn í sumarfrí og því munu allar kvartanir sármóðgaðra og óstöðugra hundaeigenda lenda á vinnufélögum mínum. Góðar stundir.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×