Erlent

Vonast til þess að „geim-herinn“ verði til 2020

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, ræðir stofnun geim-hers.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, ræðir stofnun geim-hers. Vísir/AP
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, tilkynnti í dag umfangsmikla áætlun ríkisstjórnar Donald Trump, forseta, um að stofna „geim-her“ innan herafla Bandaríkjanna. Geim-her þessum væri ætlað að verja yfirráð Bandaríkjanna í geimnum. Pence kallaði eftir því að þingið, sem þarf að samþykkja stofnun geim-hersins, veitti átta milljörðum dala til verkefnisins á næstu fimm árum.

Ef af stofnun geim-hersins verður, yrði það í fyrsta sinn frá 1947, þegar flugherinn var stofnaður, sem Bandaríkin stofna til nýrrar greinar heraflans.

Samkvæmt Washington Post er mikil mótstaða innan hernaðaryfirvalda Bandaríkjanna gagnvart þessari hugmynd. Nýi herinn myndi koma verulega niður á flugher Bandaríkjanna og taka yfir mörg málefni sem flugherinn hefur til umsjónar.



Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, skrifaði í minnisblað í fyrra að hann væri andsnúinn því að stofna sérstakan geim-her og þá sérstaklega núna þegar herinn er vinna að því að draga úr kostnaði og skriffinnsku. Hann sagði þó fyrr í vikunni að hann studdi stofnun geim-hersins.

Til stendur að leggja fram frumvarp um stofnun geimhersins í byrjun næsta árs og vonast er til þess að geimherinn verði kominn á laggirnar árið 2020.

Ræða Mike Pence í Pentagon í dag.
Í ræðu sinni nefndi Pence sérstaklega Rússa og Kínverja og sagði þá hafa unnið hörðum höndum að því að bæta getu sína í geimnum. Hann vísaði til þess að geta þeirra til að granda gervihnöttum hefði aukist til muna.

Gagnrýnendur áætlunar ríkisstjórnarinnar hafa gefið í skyn að henni sé eingöngu ætlað að dæla opinberu fé í vopnaframleiðendur Bandaríkjanna sem hafi stutt dyggilega við bakið á Repúblikönum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×