Páll Winkel fangelsismálastjóri segir það í höndum lögreglu að hafa uppi á strokufanga sem skilaði sér ekki á áfangaheimilið Vernd um helgina. Aðeins eitt og hálft ár er liðið frá því að maðurinn var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir hrottalega árás á fyrrverandi sambýliskonu sína sem sagði hann haldinn miklum ranghugmyndum.
Sjá einnig: Skilaði sér ekki á áfangaheimilið Vernd
Páll Winkel sagði í samtali við fréttastofu í gær að í langflestum tilvikum skiluðu fangar sér eftir að þeir fréttu að handtökuskipun hefði verið gefin út. Þeir sem dvelji á vernd séu á lokastigum afplánunar og því miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir vistmenn að skila sér á tilsettum tíma.
Maðurinn sem um ræður er á þrítugsaldri og var í fyrra dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir hrottalega og langvarandi árás á fyrrverandi sambýliskonu sína. Var hann dæmdur fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, kynferðisbrot og hótanir.
Brotaþoli lýsti því meðal annars í viðtali við DV að maðurinn hefði miklar ranghugmyndir vegna fíkniefnaneyslu og hefði sagst vera með klofinn persónuleika.
