Fótbolti

Fyrrum vinnuveitandi Hamren staðfestir að hann taki við Íslandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hamren virðist vera næsti landsliðsþjálfari Íslands.
Hamren virðist vera næsti landsliðsþjálfari Íslands. vísir/getty
Erik Hamren verður næsti landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta ef marka má Twitter-færslu fyrrum vinnuveitanda hans í kvöld.

Hamren hefur undanfarið ár starfað sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Mamelodi Sundowns í Suður-Afríku en félagið setti á Twitter-síðu sína nú í kvöld:

„Mamelodi Sundowns hefur staðfest að Erik Hamren hefur verið leystur undan störfum til að taka við sem landsliðsþjálfari Íslands, sem keppti á HM í Rússlandi.”

Í annarri Twitter-færslu er Hamren svo þakkað fyrir sín störf. Það virðist því vera ansi ljóst hver verður næsti þjálfari íslenska landsliðsins en KSÍ hefur enn ekkert staðfest í þessum efnum.

Hamren er 61 árs gamall Svíi sem þjálfaði sænska landsliðið með fínum árangri í sjö ár. Einnig hefur hann meðal annars gert Álaborg að dönskum meisturum og Rosenborg að norskum meisturum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×