Innlent

Skaftá heldur áfram að vaxa

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd sem fréttamaður Stöðvar 2 tók af Eldvatni nú í kvöld. Áin var dökk en enga brennisteinslykt var að finna.
Mynd sem fréttamaður Stöðvar 2 tók af Eldvatni nú í kvöld. Áin var dökk en enga brennisteinslykt var að finna. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Mælar Veðurstofunnar sýna að rennsli Skaftár er enn að vaxa við Sveinstind og er það komið yfir þúsund rúmmetra á sekúndu. Eystri-Skaftárketill hefur nú sigið um fjörutíu metra en það er um helmingi minna en í Skaftárhlaupi árið 2015.

Bjarki Kaldalóns Friis, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að við Sveinstind mælist rennsli Skaftár nú um 1.060 rúmmetra á sekúndu. Við Skaftárdal hefur rafleiðni stokkið snöggt upp. Þar er hins vegar enginn vatnshæðarmælir.

Við Eystri-Ása hjá Eldvatni, nærri þjóðveginum, hefur bæði hækkað í ánni og rennsli hennar aukist. Staða árinnar hefur hækkað úr 225 sentímetrum í 256 sentímetra nú í kvöld. Fréttamaður Stöðvar 2 sem staddur er nærri Eldvatni segir að búið sé að vaxa sjáanlega í ánni. Hún sé dökk ásjónum en hins vegar sé enga brennisteinslykt að finna þar. Brúnni yfir Eldvatn var lokað fyrr í dag.

Fyrr í kvöld sagði Auður Guðbjörnsdóttir á Búlandi í Skaftártungu að þar væri búið að vaxa hratt í ánni og þar væri brennisteinslykt greinileg.

Óvíst er hvenær lækka fer í Skaftá við Sveinstind aftur, að sögn Bjarka. Veðurstofan hafði gert ráð fyrir að hlaupið nái hámarki sínu í nótt en hann segir of snemmt að segja til um hvenær það verður nákvæmlega.

GPS-mælir á Eystri-Skaftárkatli sýnir hæðarbreytingu upp á fjörutíu metra. Í hlaupinu árið 2015 náði sigið áttatíu metrum en Bjarki segir óvíst hvort að það verði svo mikið að þessu sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×