Viðskipti innlent

Greiða 10 milljarða króna í arð til hluthafa

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Höfuðstöðvar Arion við Borgartún.
Höfuðstöðvar Arion við Borgartún. Vísir/Pjetur
Stjórn Arion banka hefur samþykkt að leggja fyrir hluthafafund bankans, sem fram fer í september, að greiða 10 milljarða króna í arð til hluthafa fyrir lok þriðja ársfjórðungs í haust. Arion banki hagnaðist um 5 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Arion banki var skráður samtímis í Kauphöll Íslands og Kauphöllina í Stokkhólmi hinn 15. júní síðastliðinn eftir almennt hlutafjárútboð þar sem 28,7 prósenta hlutur var seldur. Arion banki birti í gær uppgjör sitt fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Samstæða bankans hagnaðist um 3,1 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 7,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður bankans á fyrstu sex mánuðum ársins nam sléttum 5 milljörðum króna og var arðsemi eigin fjár 4,7 prósent. Þetta er rúmlega helmingi minni hagnaður en í fyrra en bankinn hagnaðist um 10,5 milljarða króna á fyrri helmingi síðasta árs. Heildareignir Arion banka námu 1.174 milljörðum króna í lok júní og eigið fé hluthafa bankans nam 206,9 milljörðum króna.

Fram kemur í tilkynningu  til Kauphallar vegna uppgjörsins að stjórn Arion banka hafi samþykkt að leggja fyrir hluthafafund bankans, sem fram fer í september, að greiða 10 milljarða króna í arð til hluthafa fyrir lok þriðja ársfjórðungs, sem samsvarar 5 krónum á hvern hlut.

Bankinn vinnur um þessar mundir að því að koma Stakksbergi, eignarhaldsfélagi kísilverksmiðjunnar í Helguvík, í söluferli á síðari hluta ársins, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallar.


Tengdar fréttir

Hagnaður Arion dróst saman um 56 prósent

Hagnaður Arion banka nam 3,1 milljarði króna á öðrum fjórðungi ársins og dróst saman um 56 prósent frá fyrra ári þegar hann nam 7,1 milljarði króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×