Erlent

Skiptar skoðanir um búrkubann í Danmörku

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Danskir fjölmiðlar taka ýmist afstöðu með eða á móti búrkubanninu svokallaða sem tók gildi í gær. Afar skiptar skoðanir eru um bannið að sögn íslensks fréttaljósmyndara sem starfar í Kaupmannahöfn. Lög sem banna fólki að hylja andlit sitt á opinberum stöðum tóku gildi í Danmörku í gær.

Nokkur hundruð manns mótmæltu í Kaupmannahöfn í gær en lögin eru af mörgum sögð byggja á fordómum í garð múslima. Meðal höfuðfata sem óheimilt er að klæðast á opinberum stöðum samkvæmt lögunum eru þjófalambhúshetta, búrka og svokallað Niqab.

„Við viljum taka okkur stöðu gegn pólitísku íslam, gegn bókstafstrúarmönnum í samfélagi okkar. Sumt fólk telur sig vera í fullum rétti til að ganga með höfuðslæðu sem hylur allt andlitið, yfirvöld geta ekki séð andlitið. Það er þetta sem við viljum standa gegn,“ segir Martin Henriksen, talsmaður Danska þjóðarflokksins, í samtali við Reuters.

Mótmælendur voru á öðru máli. „Þetta hryggir mig, þessi lög mismunafólki. Þetta eru fáránleg lög sem eru óskiljanleg í framkvæmd,“ segir mótmælandinn Hanni Ali.

Ólafur Steinar Gestsson, íslenskur fréttaljósmyndari sem staddur var á mótmælunum í gær, segir þau hafa farið friðsamlega fram. „Löggan var ekki að stöðva fólk og var ekki að gefa út sektir eins og lögin gefa til kynna,“ segir Ólafur.

Þá segir hann afar skiptar skoðanir vera um bannið í Danmörku en til að mynda hafi margir af stærstu fjölmiðlum landsins tekið afstöðu með eða á móti. „Politikken var með stóra forsíðu í morgun þar sem þeir skrifa að þetta væri rangt og Berlingske, annað dagblað, skrifar að þetta væri rétta leiðin til að hjálpa konum sem bera þennan höfuðbúnað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×