Erlent

Einn látinn í mótmælum á götum Harare

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla í Simbabve hefur beitt táragasi og vatnsbyssum gegn mótmælendum, en andstæðingar Zanu-PF hafa flykkst úr á götur og segja brögð hafa verið í tafli við framkvæmd kosninganna.
Lögregla í Simbabve hefur beitt táragasi og vatnsbyssum gegn mótmælendum, en andstæðingar Zanu-PF hafa flykkst úr á götur og segja brögð hafa verið í tafli við framkvæmd kosninganna. Vísir/ap
Að minnsta kosti einn er látinn í mótmælum á götum Harare, höfuðborgar Simbabve, eftir að tilkynnt var í morgun að stjórnarflokkurinn Zanu-PF, hafi náð öruggum meirihluta þingsæta í kosningunum sem fram fóru á mánudag.

Lögregla í Simbabve hefur beitt táragasi og vatnsbyssum gegn mótmælendum, en andstæðingar Zanu-PF hafa flykkst úr á götur og segja brögð hafa verið í tafli við framkvæmd kosninganna. Sky News greinir frá þessu.

AFP greinir frá því að einn hafi látið lífið í mótmælunum en fjölmenni hefur í dag safnast saman fyrir utan húsakynni yfirkjörstjórnar.

Hvetur til stillingar

Emmerson Mnangagwa forseti hefur hvatt landsmenn til að sýna stillingu á meðan beðið er eftir endanlegum niðurstöðum. Tölur frá yfirkjörstjórn benda til að Zanu-PF hafi náð um tveimur þriðju þingsæta, en slíkur meirihluti myndi gefa flokknum möguleika á að breyta stjórnarskrá landsins.

Þetta eru fyrstu kosningarnar í landinu frá því að hinum þaulsetna forseta, Robert Mugabe, var bolað frá í nóvember 2017.

Reiknað er með að útslit forsetakosninganna verði kynnt á morgun, fimmtudag. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Nelson Chamisa, hefur þegar lýst yfir sigri, en Mnagagwa hefur sagst vera sannfærður um að hann muni áfram gegna embætti forseta landsins.

Framkvæmd kosninganna

Kosningaeftirlit á vegum ESB telur framkvæmd kosninganna hafa verið betri en síðustu ár og áratugi, en að enn séu vandamál til staðar sem snúa meðal annars að starfsumhverfi fjölmiðla, hótanir í garð kjósenda og svo vantraust almennings í garð yfirkjörstjórnar.


Tengdar fréttir

Zanu-PF náði flestum þingsætum

Stjórnarflokkurinn í Simbabve virðist hafa náð flestum þingsætum samkvæmt tölum frá kjörstjórn þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×