Viðskipti innlent

Hækkun olíuverðs og íslenska krónan skýra 2,7 milljarða tap Icelandair

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Icelandair tapaði 25,7 milljónum dollara, jafnvirði 2,7 milljarða króna, á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Hækkun olíuverðs og óstöðug íslensk króna útskýra að mestu tapið að sögn Björgólfs Jóhannssonar forstjóra félagsins.

Afkoma Icelandair á öðrum ársfjórðungi er lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir en uppgjörið var birt í gær. Félagið sendi frá sér afkomuviðörun í síðasta mánuði svo hluthafar voru búnir að undirbúa sig fyrir slæmar fréttir.

„Kostnaður hefur farið hækkandi, sérstaklega olíukostnaður sem hefur ekki komið inn í verðlag á miðum. Þannig að það er þessi meðalverðspressa sem við höfum bent á ofan á kostnaðinn sem er auðvitað stóra breytingin. Við höfum ekki náð þessu út í verðlag en það eru auðvitað fleiri þættir sem koma til, við erum að búa við íslenska krónu og hér má nefna fleiri þætti,“ segir Björgólfur. Stærsti kostnaðarliður Icelandair er laun. Þau eru greidd í krónum en bandaríkjadollari er uppgjörsmynt félagsins. Icelendair reiknar með að íslenska krónan muni veikjast í framtíðinni og er félagið að reikna með 2 - 2,5 prósenta veikingu hennar á næstunni. 

Fyrsta Boeing 737 MAX þotan komin á loft í litum Icelandair. Ef vel er gáð má sjá skráningarstafina TF-ICE.Mynd/Boeing.
Spár um hækkun meðalverðs brugðust

Spár Icelandair um hækkandi meðalverð fargjalda á síðari hluta ársins hafa hingað til ekki gengið eftir. Samkeppnin á mörkuðum hefur sjaldan verið meiri en 27 flugfélög fljúga til Íslands í sumar. Á sama tíma hefur olíuverð hækkað um 60 prósent á síðustu tveimur árum. Fyrst olíuverð hefur ekki skilað sér út í miðaverð, hvar lendir þessi kostnaður?

„Eins og kemur fram hjá okkur þá er félagið rekið með tapi. Og það eru fleiri félög sem hafa sýnt breytingar, bæði samkeppnisaðilar og fleiri flugfélög hafa sýnt þessi áhrif. Það breytir því ekki að við erum með tap sem orsakast að hluta til af þessu en það eru ýmsir aðrir þættir í rekstrinum sem við getum haft meiri áhrif á,“ segir Björgólfur.

Margþættar breytingar Icelandair

Icelandair stendur á tímamótum. Fyrr á þessu ári kynnti félagið breytingar á uppbyggingu fargjalda félagsins. Þá er hótelreksturinn undir Icelandair Hotels í söluferli og hafa margir fjárfestar sýnt honum áhuga. Nýjar Boeing MAX vélar komu í flota Icelandair fyrr á þessu ári og í skoðun er uppbygging nýs tengibanka (hub) frá Keflavíkurflugvelli. Þá hafa verið gerðar talsverðar breytingar á skipulagi Icelandair með ráðningu nýrra framkvæmdastjóra yfir sölu- og markaðsmálum annars vegar og upplifun farþega hins vegar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×