Skortur á hagkvæmum lóðum í Reykjavík, há byggingarréttargjöld og þungt stjórnkerfi hefur hækkað verð á íbúðum í borginni. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa lagt fram tillögur til úrbóta. Á fyrsta fundi borgarstjórnar eftir kosningarnar lögðum við til að breytt væri skipulagi borgarinnar. Íbúðir væru leyfðar í Örfirisey, BSÍ reit, Keldum og Úlfarsárdal.
Breytum kerfinu
Bent hefur verið á að Reykjavík sé frekar dreifbýl borg. Það ætti því að vera tiltölulega ódýrt að þétta borgina. Sú leið að byggja nær eingöngu í grónum hverfum er hins vegar dýr. Með því að fara þá leið sem við höfum boðað myndi Reykjavík geta verið raunhæfur valkostur fyrir íbúðakaupendur. Og leigjendur. Annað sem við höfum lagt til er að byggingarréttargjaldi sé stillt í hóf.Þriðja atriðið er að kerfið verði einfaldara og skilvirkara. Með þessum þremur atriðum má lækka kostnað mikið, en talið er að eiginlegur byggingarkostnaður sé ekki nema rúmlega helmingur kostnaðarins. Hátt í helmingur fer í byggingarréttinn, hönnun, tafir samkvæmt tölum frá Samtökum Iðnaðarins. Rót vandans þarf að leysa. Samhliða þarf að fara í neyðarúrræði fyrir þá sem eru heimilislausir. Vandi þeirra er vandi okkar allra.
Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjvík