Innlent

Vinna við að hreinsa 1.000 til 1.500 lítra af olíu úr höfninni á Fáskrúðsfirði

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá höfninni á Fáskrúðsfirði.
Frá höfninni á Fáskrúðsfirði. ja.is
Um 10 til 12 manns vinna nú að því að hreinsa olíu úr höfninni á Fáskrúðsfirði. Talið er að um eitt þúsund til fimmtán hundruð lítrar af olíu hafi farið í sjóinn þegar verið var að dæla olíu á fiskiskip sem lá við bryggju.

Grétar Helgi Geirsson, formaður Björgunarsveitarinnar Geisla, segir í samtali við Vísi að að óhappið hafi átt sér stað um klukkan sex í kvöld og voru björgunarsveitir kallaðar fljótlega út.

Brugðist var fljótt við, setta voru út flotgirðingar til að hefta útbreiðslu olíunnar en girðingarnar drekka einnig í sig olíu. Þá er notast við niðurbrotsefni til að draga úr mengunarhættu.

Dælubíll er notaður til að ná olíunni úr sjónum en Grétar býst við að hreinsunarstarf standi yfir fram undir miðnætti í kvöld.

„Þetta gengur ágætlega, við erum að ná utan um þetta og þetta er að hreinsast upp,“ segir Grétar Helgi.

Hann býst ekki við að það muni verða mikill skaði af þessu óhappi enda hafi verið brugðist hratt við.

Þá hjálpi gott veður til. Dauðalogn er í firðinum og sjórinn spegilsléttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×