Innlent

Telur alnæmisskrif Víkverja eiga skilið sérstök hálfvitaverðlaun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata.
Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata. vísir/daníel
„Nú er lítið og sjaldan minnst á alnæmi og hættan virðist liðin hjá. Kannski var málið ekki jafn alvarlegt og talið var.“

Þannig hljóðar útgangspunktur Víkverja í Morgunblaði dagsins þar sem ónefndur penni elsta starfandi dagblaðs landsins rifjar upp kynni sín af alnæmi við fermingaraldur. Þá hafi alæmni ruðst inn í tilveruna að sögn Víkverja.

„Samkynhneigðir og fíkniefnaneytendur voru í sérstökum áhættuhópi og unglingar því beðnir um að fara varlega í ástarlífinu. Ekkert væri hægt að gera fyrir þá sem veiktust af Aids.“

Forsíða Morgunblaðsins frá því 28. apríl 1985.Tímarit.is
Rifjuð er upp forsíðufrétt Morgunblaðsins frá því 28. apríl 1985 þar sem sagði í fyrirsögn að allt mannkyn væri í hættu. Kom fram að talið væri fullsannað að Aids gæti borist með hvaða kynmökum sem er og því væru allir í áhættuhópnum. Töldu íslenskir læknar fullvíst að Aids bærist til Íslands, það væri aðeins spurning um tíma.

„Meðal viðbragða við vá þessari var að smokkasjálfsalar voru settir upp út um borg og bý og góðhjartaðar hjúkrunarkonur fluttu fyrirlestra í skólum.“

Gefur Víkverji í framhaldinu í skyn að áhyggjurnar hafi mögulega verið úr hófi.

Halldór Auðar Svansson pírati segir að skrifin eigi skilið sérstök hálfvitaverðlaun. Þau séu ævintýralega heimskuleg.

„Það er ekkert sérstaklega flókið mál að núorðið er sjaldan minnst á alnæmi á Vesturlöndum nákvæmlega vegna þess að brugðist var við með öflugum fyrirbyggjandi aðgerðum. Annars staðar, svo sem víða í Afríku, þar sem stjórnvöld hafa jafnvel sums staðar misst sig í að ýta undir afneitun á vísindalegum staðreyndum um alnæmi, er það ennþá mikið og banvænt vandamál,“ segir Halldór Auðar.

Um tugur nýgreininga er á HIV smitum á ári hverju á Íslandi en alnæmistilfelli hafa verið að jafnaði eitt á ári síðasta áratug.
Margt heimskulegt hafi verið ritað til að réttlæta afneitun á staðreyndum um hnattræna hlýnun en þetta hljóti að vinna sérstök hálfvitaverðlaun.

„Vanvirðingin í garð þeirra sem hafa unnið þrekvirki í að koma í veg fyrir alnæmisfaraldur á heimsvísu er síðan sérstök svívirða út af fyrir sig. Þetta er svona svipað og að efast um gildi slökkviliða af því það sé ekki nægilega algengt að hús brenni til grunna.“

Um sé að ræða grafskrift þess forréttindablinda, á þá leið að fyrst að maður finni ekki fyrir vandamáli þá stundina geti það ekki verið vandamál.

Í árslok 2017 höfðu samanlagt 389 tilfelli af HIV-sýkingu verið tilkynnt til sóttvarnarlæknis samkvæmt upplýsingum á vef Landlæknis. Þar af höfðu 73 sjúklingar greinst með alnæmi og 39 látist af völdum sjúkdómsins. 28 tilfelli af HIV-sýkingu komu upp á Íslandi árið 2017.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×