Eftir því sem Vísir kemst næst var lítil hætta á ferðum en fulltrúi slökkviliðsins hafði engan tíma til að ræða við blaðamann þegar hann náði af honum tali upp úr klukkan hálf eitt. Hann var önnum kafinn við vinnu. Búið var að ráða niðurlogum eldsins sem gekk greiðlega að slökkva.
Svo vel að meira að segja Bubbi Morthens, sem sló botninn í tónleika kvöldsins, varð ekki eldsins var. Blaðamaður náði tali af Bubba rétt fyrir klukkan eitt.
„Það kemur mér ekkert á óvart að það kvikni eldur þar sem ég er,“ sagði Bubbi léttur. Hann segir tónleikana hafa heppnast einkar vel og fjöldinn verið gríðarlegur.
„Þetta var alveg geggjað. Hér hafa verið yfir þrjátíu þúsund manns!“
Blíðskaparveður var á Dalvík í dag og telja skipuleggjendur að á fjórða tug þúsund manns hafi sótt hátíðina árlegu heim. Gestir sem Vísir ræddi við segja tónleikana hafa verið einkar vel heppnaða og glæsilega.

