Stjarnan tekur á móti Val í Pepsi-deild karla í kvöld í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar. Margir líta á þennan leik á Samsung vellinum í Garðabæ sem hálfgerðan úrslitaleik um Íslandsmeistaraititlinn í ár.
Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Hörður Magnússon og félagar í Pepsimörkunum verða með upphitun fyrir leik og gera hann síðan upp eftir hann.
Liðin hafa mæst sjö sinnum í Pepsi-deildinni með núverandi þjálfara eða frá því að Ólafur Jóhannesson tók við Valsliðinu fyrir 2015 tímabilið.
Valsmenn hafa unnið fjóra af þessum leikjum og fengið níu fleiri stig (14 á móti 5).
Það sem er athyglisvert við það er að Stjörnumenn hafa komist yfir í fimm leikjanna en aðeins einu sinni náð að vinna. Stjörnumenn komust meira að segja tvisvar sinnum yfir í leik liðanna í maí en Valsmenn jöfnuðu í bæði skiptin.
Eini sigur Stjörnunnar á Val á síðustu fjórum tímabilum kom á Valsvellinum á Hlíðarenda 3. október 2015 eða í lokaumferðinni það sumar.
Þetta var jafnframt fyrsti heimaleikur Valsmanna á nýja gervigrasinu sínu á Hlíðarenda eftir að hafa skipt út grasinu fyrr um sumarið.
Stjörnumenn hafa alls verið yfir í 162 mínútur í þessum sjö leikjum en það hefur samt bara skilað þeim fimm stigum. Valsmenn sem hafa verið yfir í 153 mínútur, eða níu mínútum skemur, hafa aftur á móti fengið fjórtán stig.
Síðustu sjö leikir Vals og Stjörnunnar í Pepsi-deild karla:
- 2018 -
18. maí á Hlíðarenda: 2-2 jafntefli (Stjarnan komst í 1-0 og 2-1)
- 2017 -
24. september í Garðabæ: 2-1 sigur Vals
9. júlí á Hlíðarenda: 1-1 jafntefli (Stjarnan komst í 1-0)
- 2016 -
11. september í Garðabæ: 3-2 sigur Vals (Stjarnan komst í 2-0)
5. júní á Hlíðarenda: 2-0 sigur Vals
- 2015 -
3. október á Hlíðarenda: 2-1 sigur Stjörnunnar (Stjarnan komst í 2-0)
10. júlí í Garðabæ: 2-1 sigur Vals (Stjarnan komst í 1-0)
Jöfnunarmörk Valsmanna í leikjunum frá 2015-2018:
1 - Patrick Pedersen (2018)
1 - Sigurður Egill Lárusson (2018)
1 - Bjarni Ólafur Eiríksson (2017)
1 - Andreas Albech (2016)
1 - Sjálfsmark (2015)
Sigurmörk Valsmanna í leikjunum frá 2015-2018:
1 - Andreas Albech (2016)
1 - Kristinn Freyr Sigurðsson (2015)
Skipting forystu í Pepsideildar leikjum Vals og Stjörnunnar frá 2015-2018:
315 mínútur - Jafnt
162 mínútur - Stjarnan yfir (samtals 5 stig)
153 mínútur - Valur yfir (samtlas 14 stig)

