Innlent

Hópferðir farnar til að sækja tannlæknaþjónustu

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Þekkt dæmi eru um að Íslendingar fari í hópferðir til Austur - Evrópu til að sækja sér hagstæðari tannlæknaþjónustu en talsverður munur getur verið á kostnaði. Algengt er að ungt fólk með illa farnar tennur fari þessa leið.

Tannlæknastofur í Evrópu hafa ráðið til starfa íslenska umboðsmenn til að ná til Íslendinga og bjóða þeim tannlæknaþjónustu ytra. En talsverður munur getur verið á kostnaði á tannlæknaþjónustu hér á landi og í sumum öðrum löndum. Í Morgunblaðinu í dag sagði formaður tannlæknafélagsins að ódýrari vinnuafl og hráefni gæti skýrt verðmuninn. Hún segir ljóst að ferðirnar séu að færast í aukanna. Tannlæknastofurnar eru farnar að herja á íslenskan auglýsingamarkað og nota ýmsar leiðir til að fá hópa til sín.

Þóra Guðmundsdóttir sótti þjónustuna út fyrir landsteinana. Í kjölfarið stofnaði hún hópinn tannlæknar í útlöndum á Facebook til að fólk geti deilt reynslusögum.

„Auðvitað getur þessu fylgt áhætta. En ég meina þetta er ekki þriðja heimsríki. Þetta eru lönd sem eru með mjög vel menntaða tannlækna og vel útbúnar stofur. Það er líka aðgangur að öðrum læknum ef þarf á að halda,” segir hún.

Sjálf hafði Þóra ekki efni á að leita til tannlæknis í mörg ár og þekkir marga með sömu reynslu.

„Ég myndi segja að þessi hópur sem fer skiptist í tvennt. Annars vegar þeir sem hafa ekki annarra kosta völ, það er annað hvort spurning um að gera þetta svona og fara, eða bara gera ekki neitt. Svo eru hinir sem eiga pening sem sjá kannski ekki ástæðu til borga 500 þúsund þegar þú kemst upp með að borga 120 þúsund,” segir hún.

Hún segir tannheilsu Íslendinga almennt lélega.

„Það sem kom mér hryllilega á óvart er að það eru ungar stelpur sem eru komnar með heilgóma, bara af því tennurnar á þeim voru svo illa farnar og þær gátu ekki ráðið við það. Höfðu ekki efni á svona implanti og fíneríi. Til þess bara að geta opnað munninn og brosað eru þær komnar með heilgóma, í dag árið 2018,” segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×