Skoðun

Hvað vorum við að hugsa?

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Í síðustu viku fengum við innsýn í hvernig er að liggja dauðvona á Landspítala við Hringbraut þegar aðstandandi deildi hljóðupptöku af linnulausum framkvæmdunum sem munu vera rétt að byrja.

Sjálf hef ég unnið á heilbrigðisstofnun sem verið var að gera upp og hugsa með hryllingi til þess tíma. Við gátum ekki haldið uppi samræðum á læknastofunni og þegar heim var komið heyrði ég ekki lengur hvað börnin mín voru að segja. Ég heyrði reyndar ekki í eiginmanni mínum heldur en þannig er það nú alltaf.

Nú get ég rétt ímyndað mér hvernig er að vera í sporum þeirra sem eru alvarlega veikir við svona aðstæður.

Umhverfi hefur nefnilega áhrif á bataferli sjúklinga. Brautryðjandi í þeim rannsóknum var umhverfissálfræðingurinn Roger Ulrich sem birti niðurstöður í vísindatímaritinu Science árið 1984. Fólki, sem horfði út um glugga á skógi vaxna náttúru, farnaðist betur eftir skurðaðgerð, þurfti minna af verkjalyfjum og hafði færri fylgikvilla eftir aðgerð í samanburði við sjúklinga sem horfðu á steinsteypu.

Fyrir 1984 fannst mönnum eðlilegt að á spítölum væri hávaði, þeir væru illa lyktandi og fólk hreinlega týndist þar. Þá var ekki verið að hugsa út í að streita gæti haft neikvæð áhrif af bataferli sjúklinga.

Maður veltir fyrir sér hvort þeir sem bera ábyrgð á að endurbyggja spítala allra landsmanna í miðju umferðaröngþveiti við undirspil múrbrjóta, hafi að leiðarljósi hvað sé best fyrir þá sem þurfa að sækja þjónustu spítalans.

Hefði verið gæfulegra að byggja nýjan spítala á grænu svæði höfuðborgarinnar og hlífa veikum fyrir hávaðanum? Munum við mögulega horfa til baka og spyrja okkur: „hvað vorum við að hugsa?“






Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×