Hval sem dreginn var að landi í Hvalfirði í gær svipar mjög til dýrs sem veitt var 7. júlí síðastliðinn og var síðar staðfest að væri blendingur langreyðar og steypireyðar. Starfsmaður Hafrannsóknastofnunar var á staðnum þegar hvalurinn var dreginn á land og tilkynnti strax um atvikið og rannsakaði dýrið.
„Bráðabirgðaniðurstaða starfsmanns Hafrannsóknastofnunar er sú að hvalurinn, sem landað var í morgun, sé blendingur en stofnunin hefur þegar hafið vinnu við að greina sýni þannig að hægt verði að staðfesta með erfðafræðilegum aðferðum hvort sú greining sé rétt,“ segir í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun. Þar segir jafnframt að niðurstöður úr erfðarannsókn muni liggja fyrir í byrjun næstu viku.
Dýraverndunarsamtökin Hard to Port náðu myndum af löndun og flensun dýrsins í gær. Annað dýr, kelfd langreyðarkýr, var einnig drepið og dregið að landi. Ekki er óalgengt að kelfdar kýr séu drepnar við hvalveiðar.
Samtökin segja veiðarnar vera stjórnlausar.
„Það lítur út fyrir að enn einn blendingshvalurinn hafi verið drepinn,“ segir í tilkynningu frá samtökunum. „Þessi hvaladráp eru ónauðsynleg, það er engin eftirspurn eftir þessu kjöti á Íslandi og bannað er að flytja út kjöt af blendingshval til Japans. Skrokkum þessara ófæddu kálfa mun verða fargað.“ – khn
Innlent