Sport

Guðbjörg Jóna og Tiana Ósk báðar á palli í 100 metra hlaupi í Bergen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Mynd/Fésbókin/Frjálsíþróttadeild ÍR
Íslenska frjálsíþróttafólkið vann fern verðlaun á Trond Mohn Games í Bergen í Noregi.

Mótið er haldið til heiðurs Trond Mohn sem er fyrrum íþróttamaður og hefur lagt mikið fjármagn til íþrótta, rannsókna og heilsueflingar.

Á meðal keppenda á mótinu var Karsten Warholm sem er bæði heims- og evrópumeistari í 400 metra grindarhlaupi. Einnig kepptu allir þrír Ingebrigtsen bræðurnir sem stálu senunni á EM í Berlín. Því er mikill heiður að vera boðin þáttaka á þessu móti.

Ísland átti fjóra keppendur á mótinu og Í-ingarnir unnu allir til verðlauna í Bergen í gær.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir fékk silfur í 100 metra spretthlaupi og Tiana Ósk Whitworth fékk bronsverðlaun. Litlu munaði á þeim Guðbjörgu og Tiönu en Guðbjörg kom í mark á 11,91 sekúndum og Tiana á 12,05 sekúndum. Mótvindur var 0,7 metrar á sekúndu.

Aníta Hinriksdóttir fékk brons í 800 metra hlaupi. Hún kom í mark á 2:04,02 mínútum.

Guðni Valur Guðnason keppti í kringlukasti þar sem hann kastaði lengst 60,03 metra og fékk brons.

Evrópumeistarinn ungi Jacob Ingebrigtsen vann 1500 metra hlaupið á 3,41,81 mínútum og bróðir hans Henrik Ingebrigtsen vann 3000 metra hlaupið á 7,42,72 mínútum.

Karsten Warholm vann 300 metra hlaupið á 32,69 sekúndum. Hér má sjá öll úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×