Erlent

Ardern kemur í veg fyrir launahækkanir þingmanna

Hulda Hólmkelsdóttir og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands. VÍSIR/AFP
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands hefur fryst laun þingmanna þar í landi til að minnka ójöfnuð. Ráðherrann sagði að launahækkarnir þingmanna væru úr takt við hækkanir annarra landsmanna og væru ekki til þess fallnar til að koma á sátt í landinu.

Laun og aðrar greiðslur til þingmanna hafa verið frystar þangað til í júli á næsta ári. Ardern sagði að þetta væri það eina rétta og að ekki væri um neins konar niðurskurð að ræða, heldur væri tilgangurinn að búa til réttlátara samfélag á Nýja Sjálandi.

Til stóð að hækka laun þingmanna um þrjú prósent og var það kveikjan að ákvörðuninni. Þótti ráðherranum það ekki viðeigandi þar sem kjarabarátta hefur verið fyrirferðamikil á Nýja Sjálandi það sem af er ári og hafa meðal annars kennarar og hjúkrunarfræðingar farið í verkfall.

Sjálf er Ardern fimmti launahæsti þjóðarleiðtogi OECD-ríkjanna og þénar meira en forsætisráðherrar Kanada og Bretlands, Justin Trudeau og Theresa May.

Mikil ánægja virðist ríkja með ákvörðun Ardern meðal almennings í Nýja Sjálandi. Stjórnmálaskýrendur hafa þó einhverjir sagt að útspilið sé aðeins hégómleg tilraun til þess að bæta ímynd ríkisstjórnarinnar.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherrann verður móðir

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Arden, tilkynnti í gær að hún eigi von á barn með eiginmanni sínum, Clark Gayford




Fleiri fréttir

Sjá meira


×