Erlent

Spillingarrannsókn á fyrrverandi forseta Suður-Afríku hafin

Kjartan Kjartansson skrifar
Rannsakendurnir hafa ekki heimild til að gefa út ákærur. Hins vegar verður hægt að nýta það sem þeir verða vísari í dómsmálum.
Rannsakendurnir hafa ekki heimild til að gefa út ákærur. Hins vegar verður hægt að nýta það sem þeir verða vísari í dómsmálum. Vísir/EPA
Opinber rannsókn á meintri spillingu Jacobs Zuma, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, hófst í dag. Ásakanir um fjármálaspillingu urðu til þess að Zuma hrökklaðist úr embætti í febrúar.

Á meðal ásakananna er að Zuma hafi leyft Gupta-fjölskyldunni, einni auðugustu fjölskyldu landsins, að kaupa sér áhrif á ríkisstjórn hans. Hún hafi meðal annars fengið að tilnefna ráðherra í ríkisstjórn hans, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Því hafa bæði Zuma og Gupta-fjölskyldan hafnað alfarið.

Rannsóknin nú byggir á skýrslu sem saksóknari tók saman í desember. Hann fann vísbendingar um spillingu æðstu embættismanna ríkisstjórnarinnar.

Auk mögulegrar spillingar í tengslum við val á ráðherrum beinist rannsóknin meðal annars að því hvort að Zuma og aðrir opinberir embættismenn hafi hagnast á opinberum útboðum. Búist er við því að rannsóknin gæti tekið allt að tvö ár.


Tengdar fréttir

Ríkissaksóknari tætir teflonið utan af Zuma

Fyrrverandi forseti Suður-Afríku dreginn fyrir dóm. Ákærður fyrir fjárdrátt, spillingu, fjársvik og peningaþvætti. Zuma neitar þó sök og mun væntanlega verjast með kjafti og klóm þótt hann geti ekki lengur treyst á stuðning ríkisins.

Gupta-bróðir berst gegn eignafrystingu

Atul Gupta, einn þriggja Gupta-bræðra sem sæta rannsókn vegna spillingarmála og tengsla við Jacob Zuma, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, fer fram á að kyrrsetningu eigna sinna verði aflétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×