Innlent

Eyþór segir skuldasöfnun borgarinnar í tekjugóðæri óásættanlega

Birgir Olgeirsson skrifar
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. Vísir/Vilhelm
Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins var afgreiddur í borgarráði í dag en Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur, segir í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum að þrátt fyrir að rekstur A hluta sé jákvæður um tæplega fjóra milljarða séu skuldir og skuldbindingar borgarsjóðs að aukast um 4 milljarða milli ára á síðustu 12 mánuðum. „Þar af aukast skammtímaskuldir um 3,4 milljarða. Þá minnkar handbært fé um 14,6 milljarða,“ er haft eftir Eyþóri.

Þá bendir Eyþór á að skuldasöfnun borgarsjóðs í góðæri sé ekki sjálfbær og að þeirri þróun þurfi að snúa við. Hann segir að huga þurfi að lækkun skulda á meðan kostur er. „Það er auðvitað ekki ásættanlegt að í einu mesta tekjugóðæri Íslandssögunnar séu skuldir borgarinnar að aukast. Eðlilegast væri að greiða niður skuldir á meðan kostur er,“ er haft eftir Eyþóri í tilkynningunni.

Jafnframt segir hann það vekja athygli að talin sé þörf á að hækka gjaldskrár Félagsbústaða. „Undanfarin átta ár hefur bókfærður hagnaður vegna endurmats eigna verið 38 milljarðar íslenskra króna. Það virðist hvorki skila sér inn á bankabók borgarinnar né til leigjenda Félagsbústaða," er haft eftir Eyþóri. 

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×