Viðskipti innlent

Moka inn milljörðum á CCP-sölunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, og Björgólfur Thor Björgólfsson en félag hans Novator er stærsti hluthafi CCP
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, og Björgólfur Thor Björgólfsson en félag hans Novator er stærsti hluthafi CCP
Ljóst er að eigendur CCP munu hagnast vel á sölunni á fyrirtækinu til kóreska leikjaframleiðandans Pearl Abyss sem tilkynnt var um í dag. Kaupverðið nemur 46 milljörðum króna og munu stærstu eigendur félagsins fá dágóða summu í eigin vasa.

CCP var stofnað árið 1997 en helsta vara fyrirtækisins er leikurinn EVE Online sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Mbl.is birti í dag lista yfir stærstu hluthafa CCP í árslok 2017 og þar má sjá að Novator, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og tengdir aðilar þess eigi 43,42 prósent í CCP. Hluti Novators og tengdra aðila í söluverðinu nemur því um 20 milljörðum króna.

EVE Online hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár.

Forstjórinn fær þrjá milljarða

Novator varð stærsti hluthafi CCP árið 2005 en fyrir nokkrum árum komu framtakssjóðurinn New Enterprise Associates (NEA) og fjárfestingafélagið General Catalyst (GC) inn í hluthafahóp CCP. NEA lagði til um fjóra milljarða króna til CCP árið 2015 og átti í árslok 2017 23,1 prósent hlut í CCP en GC átti 21,3 prósent. Hlutdeild NEA í sölunni er því um tíu milljarðar en hlutdeild GC um 9,8 milljarðar.

Þá er Hilmar Veigar Pétursson, einn af stofnendum CCP og forstjóri félagsins, einn af stærstu hluthöfum CCP en hlutur hans nam 6,51 prósenti í árslok samkvæmt lista Mbl.is. Hlutdeild Hilmars í sölunni til kóreska fyrirtækisins nemur því um þremur milljörðum króna.

Í frétt mbl.is segir að kaupverðið verði greitt í reiðufé, að hluta til í haust þegar gengið verður frá endanlegum samningum, hinn hluti greiðslunnar velti hins vegar á árangurstengdum markmiðum til tveggja ára.

Í tilkynningu vegna sölunnar kemur fram að samkvæmt samningnum sem fyrirtækið hafa undirritað muni CCP áfram starfa sem sjálfstæð heild og halda óbreyttum rekstri í Reykjavík, London og Sjanghæ.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×