Innlent

Minna hugað að vörnum gegn spillingu á Íslandi

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Íslendingar hafa farið sér hægar en nágrannaþjóðirnar í aðgerðum til að tryggja heilindi í opinberum störfum og hér á landi hefur minna tillit verið tekið til tilmæla og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana um varnir gegn spillingu en æskilegt hefði verið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem starfshópur á vegum forsætisráðherra sendi frá sér í dag.

Starfshópnum var ætlað að rýna í hvernig efla eigi traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Einnig var hópnum gert að taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að endurskoða siðareglur í stjórnsýslu ríkisins og bæta lagalega umgjörð þeirra.

Tillögur hópsins skiptast í átta megin svið og 25 tillögur. Jón Ólafsson, prófessor og formaður hópsins, segir þá tillögu að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands fái tímabundið það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um siðferðileg álitamál geti falið í sér breytingu á kerfinu.

Einnig var lagt til að hagsmunaskráning ráðherra og æðstu embættismanna yrði skýrari og umfangsmeiri en nú er, heildarlög yrðu sett um vernd uppljóstarara, tillögur um betra aðgengi að upplýsingum og skýrari stefnumótun um upplýsingagjöf til almennings og að stjórnvöld setji skýr markmið um lýðræðislegt samráð við almenning.

Jón spyr sig hvað veldur pólitísku vantrausti og hvernig hægt sé að takast á við það.

„Okkar niðurstaða er sú að það séu fyrst og fremst stjórnvöld sem geti gert það. Þau geti gert það með ákveðum aðgerðum þar sem það er tryggt eins og hægt er að almenningur fái það á tilfinninguna að það sé hæft fólk og hæfni í kerfinu. Það er að segja að fólk geti trúað því að stjórnkerfið leysi sín mál og bregðist við af hæfni,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×