Það sem er nýtt í ár er að dagskráin færist úr Hörpu yfir á fleiri staði en einnig er í ár lögð áhersla á fleiri konur í djasstónlist. Sex konur eru í fararbroddi atriða á hátíðinni í ár auk Rósu Guðrúnar Sveinsdóttur sem leiðir skrúðgönguna í ár.
„Í dag er mikið hugað að jöfnum möguleika kynjanna og í djassgeiranum eru konur í miklum minnihluta. Þetta á ekki bara við hér á Íslandi, þó svo að við séum kannski á eftir samanburðarþjóðum í þessum málum. Við í stjórn hátíðarinnar trúum því að með því að flytja inn heimsklassa kvenkyns hljómleikafólk gefum við kvenkyns tónlistarnemendum fyrirmyndir. Stelpur spila líka djass,“ segir Leifur hátíðarhaldari og tónlistarmaður.

Meginuppistaðan á hátíðinni er það helsta úr íslensku djasssenunni, en einnig eru flutt inn nokkur atriði frá útlöndum.
Hægt verður að kaupa staka miða á alla viðburði á Jazzhátíð en einnig eru í boði afsláttarpakkar á 4, 6 eða 8 tónleika. Miðasala fer fram á tix.is og dagskrána í heild sinni má finna á reykjavikjazz.is.