Innlent

Logi og Rósa fóru ekki í flugmóðurskipið: „Hef nóg að gera á þinginu“

Birgir Olgeirsson skrifar
Logi Már og Rósa Björk.
Logi Már og Rósa Björk. Vísir/Vilhelm/Stefán
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, þáðu ekki boð bandaríska sendiráðsins á Íslandi um að fara um borð í flugmóðurskipið USS Harry S. Truman.

Utanríkisráðherra, þingmönnum í utanríkismálanefnd og þingmannanefnd NATO var boðið um borð í skipið. Rósa Björk og Logi eru í utanríkismálanefnd Alþingis.

Rósa Björk segist í samtali við Vísi hafa afþakkað boðið. „Þetta er ekki minn tebolli og samræmist ekki alveg mínum pólitískum skoðunum eða áhugasviði, þannig að ég var ekki að fara,“ segir Rósa.

Logi segir í samtali við Vísi að hann hefði takmarkaðan áhuga á flugmóðurskipum. „Ég hef nóg að gera á þinginu og alveg óskaplega lítinn áhuga á flugmóðurskipum. Ég ákvað því að sleppa þessu.“

Mynd tekin af flugmóðurskipinu Harry S. Truman í Norður-Atlantshafi í gær.Bandaríski sjóherinn
Hann segist halda að tilgangur ferðarinnar hafi verið að kynna varnaræfingu Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, sem haldin verður í Norður-Atlantshafi, í Noregi og á Íslandi í október og nóvember næstkomandi.

„Ég fékk bara fullnægjandi kynningu á þessu öllu utanríkismálafundi í morgun og taldi það nægja,“ segir Logi.

Flogið var með tveimur Gumnman C2 Grayhound flutningavélum frá Reykjavíkurflugvelli um klukkan eitt í dag. Var það talið athyglisvert í ljósi þess að samningur á milli Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins um Reykjavíkurflugvöll frá árinu 2013 kveður á um að hernaðarumsvif skuli vera eins lítil og mögulegt er.

Staðfest er að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Smári McCarthy þingmaður Pírata, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingmaður Samfylkingarinnar og Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins fóru um borð í flugmóðurskipið.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var einnig þar ásamt starfsfólki varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×