Samkvæmt heimildum fréttastofu er um að ræða ferð í boði bandaríska sendiráðsins. Flogið var með tveimur Grumman C2 Grayhound flutningavélum frá Reykjavíkurflugvelli um klukkan eitt í dag. Það er athyglisvert í ljósi þess að Reykjavíkurborg hefur bannað allt herflug um Reykjavíkurflugvöll, síðast á flugsýningu í byrjun september.
Um er að ræða flota herskipa með flugmóðurskipið USS Harry S. Truman í broddi fylkingar sem er á ferð um Norður-Atlantshaf. Nánar má lesa um skipið og NATO verkefni þess, sem aðallega tengjast samskiptum við Evrópu og Afríku, á vefsíðu bandaríska sjóhersins.
Fréttastofa getur staðfest að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar, Smári McCarthy þingmaður Pírata, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingmaður Samfylkingarinnar, Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins eru á meðal þingmanna um borð í flugmóðurskipi.
Flugvélarnar tvær, sem Íslendingarnar flugu með frá Reykjavíkurflugvelli í dag, eru væntanlegar aftur síðdegis.
Njáll Trausti birti mynd af annarri flutningavélinni á Facebook í dag. „Farkostur dagsins“ segir Njáll Trausti en frekari skýringar fylgja ekki.
Farkostur dagsins.
Posted by Njáll Trausti Friðbertsson on Wednesday, September 19, 2018
Þær upplýsingar fengust frá utanríkisráðuneytinu eftir birtingu fréttarinnar að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra væri sömuleiðis með í för ásamt starfsfólki varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Að neðan má sjá myndband af flugmóðurskipinu.