Íslenski boltinn

Skoraði fernu í gær og dreymir um að verða Íslendingur í desember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cloe Lacasse.
Cloe Lacasse. Vísir/Ernir
Cloe Lacasse átti frábæran leik í gær þegar Eyjakonur unnu 5-1 sigur á HK/Víkingi í 17. umferð Pepsideild kvenna í fótbolta.

Cloe Lacasse skoraði fernu fyrir ÍBV í leiknum og er þar með kominn með tíu mörk á þriðja tímabilinu í röð.

Þetta er önnur ferna hennar í Pepsideildinni því hún skoraði einnig fernu á móti Fylki 16. júní 2017.

Cloe Lacasse hefur alls skorað 43 mörk fyrir ÍBV á fjórum tímabilum í Pepsideild kvenna.

Cloe Lacasse vinnur nú að því að verða íslenskur ríkisborgari. Hún var í viðtali hjá Fótbolta.net í tilefni af því að vera valin besti leikmaðurinn 17. umferð.

Hin 25 ára gamla Cloe byrjaði í fyrra að vinna í að fá íslenskan ríkisborgararétt og nú sér fyrir endann á þeirri vinnu.

„Ferlið að ná í ríkisborgararétt gengur vel. Allir hjá ÍBV hafa hjálpað mér mikið í þessu mjög langa og flókna ferli. Ef allt gengur samkvæmt áætlun þá ætti ég að verða orðin íslenskur ríkisborgari í lok desember," sagði Cloe í viðtalinu við fótbolta.net.

Cloe vill samt ekki gefa upp hvort hún spili áfram með ÍBV liðinu í Pepsideildinni næsta sumar.

„Ég vil ekki tjá mig um það," sagði Cloe en hún vildi heldur ekki tjá sig um það hvort hún hafi rætt við önnur félög í þessu viðtali við Fótbolta.net.

Cloe Lacasse gæti mögulega spilað með íslenska kvennalandsliðinu í næstu undankeppni en hún hefur ekki spilað landsleik fyrir kanadíska A-landsliðið. Hún er enn bara 25 ára og ætti því að eiga nóg eftir til að geta hjálpað íslenska landsliðinu í framtíðinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×