Innlent

Aðeins hægt að nota tólf af 58 rafbílatenglum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Aðeins er hægt að nota fimmtung af þeim rafbílatenglum sem Reykjavíkurborg hefur sett upp í miðborginni þar sem Veitur hafa ekki sett rafmagn í þá. Skrifstofustjóri umhverfisgæða hjá borginni segir að rafbílaeigendur séu orðnir verulega óþreyjufullir. Reykjavíkurborg kannar nú hvaða rekstrarform sé ákjósanlegast fyrir hleðslustöðvar.

Guðmundur Benedikt Friðriksson skrifstofustjóri umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg segir að hleðslustöðvar hafi verið settar upp á þrettán stöðum í borginni, þar séu 58 tenglar en aðeins sé hægt að nota tólf þeirra.   

„Við bíðum ennþá eftir rafmagni inní kassana frá Veitum. Við höfum beðið eftir þessu frá þeim í nokkuð langan tíma en vonumst til að þetta fari að gerast þar sem rafbílaeigendur eru orðnir verulega óþreyjufullir,“ segir hann. 

Guðmundur segir að verið sé að skoða þrettán staði til viðbótar.

„Við erum að fara í tilraunaverkefni á þrettán stöðum og ætlum að sjá hvernig reksturinn og kostnaðurinn koma út. Í framhaldinu þurfum við svo að ákveða hvernig við ætlum að reka þessar hleðslustöðvar,“ segir Guðmundur. 

Verið sé að horfa til nágrannalanda um hvernig þau hagi rekstri á slíkum stöðvum. Guðmundur segir að það þurfi jafnframt að setja upp hleðslustöðvar í hverfum þar sem fólk á ekki tiltekið stæði eins og algengt er í Vesturbænum og miðborginni. En telur að ríkið þurfi einnig að koma með fjármagn í slík verkefni.

„Mér finnst eðlilegt að við leitum til ríkisins með það líkt og gert er í Englandi þar sem ríkið styrkir hleðslustöðvar sem þurfa að vera í borgarlandinu,“ segir Guðmundur að lokum. 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×