Þorsteinn var gestur þáttarins N-sins þar sem hann ræddi um neytendamál við Guðmund Hörð Guðmundsson, frambjóðanda til formanns Neytendasamtakanna. Þar kallaði hann meðal annars eftir því að Samkeppnisstofnunin fái „meiri völd“ og auknar rannsóknarheimildir til að „grafa betur“ í íslensku viðskiptalífi.
Meðal þess sem Þorsteinn telur að megi kanna betur er fataverslun á Íslandi. Fátt lýsi verðlagningu á þeim markaði betur en innreið fatakeðjunnar H&M, sem opnaði sína fyrstu verslun á Íslandi í ágúst í fyrra.
Frá opnun verslunarinnar var ljóst að verð H&M hér á landi yrðu hærri en í verslunum keðjunnar erlendis og var verðmunurinn í sumum tilfellum um 60 prósent.

Því sé víða pottur brotinn í íslenskri fataverslun, eins og koma H&M beri með sér. „Allt í einu kom hérna H&M - sem er himnaríki fyrir þá sem kaupa dálítið af fötum. Þau koma inn á markaðinn 30 prósent dýrari heldur en á Norðurlöndunum yfirleitt. Þetta bara sést á verðmiðanum hjá þeim,“ segir Þorsteinn. „Ég er ekki búinn að fara inn í þessa verslun, síðan að hún kom til Íslands. Mér dettur ekki í hug að fara þangað.“
Aðspurður hvort hann telji að mismunurinn liggi í flutningskostnaði til Íslands segir Þorsteinn að líklega spili hann einhverja rullu. Engu að síður veki hinn mikli verðmunur upp spurningar.
„Hvaðan ertu að flytja þennan fatnað? Kína, Indlandi, Filippseyjum - til Norðurlandanna. Það er dágóður spölur. Bíddu, er leggurinn hingað þá svona rosalega dýr?“ spyr Þorsteinn og bætir við: „Þá þurfum við að skoða flutningastarfsemina.“
Spjall þeirra Guðmundar og Þorsteins má heyra hér að neðan. Umræðan um H&M hefst þegar um 28 mínútur eru liðnar af spjallinu.