Hannes Þór Halldórsson sagði það óafsakanlegt að íslenska landsliðið hafi tapað 6-0, en nú þurfi liðið að muna hvað þeir geta gert á Laugardalsvelli.
Hannes sat fyrir svörum með landsliðsþjálfaranum Erik Hamrén á blaðamannafundi fyrir leik Íslands og Belgíu í Þjóðadeildinni annað kvöld.
„Við höfum ekki lent í neinu svipuðu með þessu liði og maður bjóst ekki við því að lenda nokkurn tímann í einhverju svona með þessu liði,“ sagði Hannes um 6-0 tapið gegn Sviss ytra á laugardaginn.
„Okkur vantar fullt af leikmönnum en það er engin afsökun. Sviss spilaði frábæran leik en auðvitað ætla ég ekki að koma með neinar afsakanir. Þetta fer 6-0 og það er óafsakanlegt.“
Verkefnið annað kvöld er ærið. Næstefsta lið heimslistans, bronsliðið frá HM. Hannes hefur þó fulla trú á íslenska liðnu á morgun.
„Við þurfum að muna hvað við höfum gert hér á þessum velli.“
„Þetta verður mjög erfitt en við höfum áður náð í úrslit gegn liði sem fékk brons á HM hér á þessum velli,“ sagði Hannes Þór Halldórsson og vísaði til árangurs Íslands gegn Hollandi í undankeppni EM 2016. Þá höfðu Hollendingar nælt í brons í Brasilíu 2014.
Leikur Íslands og Belgíu hefst klukkan 18:45 annað kvöld. Leikurinn er í beinni útsendingu í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport og hefst upphitun klukkutíma fyrir leik.
