„Ekki geyma það að byrja heldur vaða í þetta strax,“ skrifar Sigurlaug sem leggur til að byrjað verði á því að klippa fræin af plöntunum núna í haust og farga þeim.

Sjálf segist Sigurlaug hafa tínt kerfilsfræ í átta stóra poka nú í ágúst og í sjö poka í ágúst árið 2016. „Er að passa Vesturhópið og víðar,“ útskýrir hún.
Sigurlaug lætur sér ekki nægja að eyða fræjum í baráttu sinni við kerfilinn. Á ungar plöntur segist hún hafa notað óblandaða, 15 prósenta edikssýru og „spreyjað vel og drepið kerfið – en líka grasið, skítt með það,“ segir í áskoruninni.
Ágætlega var tekið í erindi Sigurlaugar í byggðaráði sem kveður skógarkerfil nú að finna víðs vegar í landi sveitarfélagsins sem og á einkalandi. „Dreifing hans er áhyggjuefni og hefur sveitarfélagið ýmislegt gert til að hefta vöxt hans eins og með slætti, úðun og að stinga upp plönturnar,“ bókar byggðarráðið sem skorar á alla sem málið varði „að taka höndum saman og leggja sitt af mörkum til að hindra að þessi jurt nái frekari útbreiðslu í sveitarfélaginu“.
Í samtali við Fréttablaðið undirstrikar Sigurlaug að málið þoli ekki bið. „Mér finnst vera of mikið kæruleysi. Sumir spyrja hvort það sé ekki bara í lagi að taka þetta næsta sumar. Þetta er ekki þannig því það eru milljónir fræja sem sá sér í haust ef þau eru ekki tekin,“ segir Sigurlaug.