Innlent

Vélinni gefið grænt ljós til Kaupmannahafnar eftir að flugfreyjur leituðu á sjúkrahús

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugfreyjurnar leituðu á sjúkrahús vegna óþæginda, höfuðverks og þreytueinkenna í dag.
Flugfreyjurnar leituðu á sjúkrahús vegna óþæginda, höfuðverks og þreytueinkenna í dag. Vísir/Vilhelm
Skoðun á flugvél Icelandair, sem kom til landsins frá Edmonton í Kanada snemma í morgun, lauk skömmu eftir lendingu og var vélin send til Kaupmannahafnar síðdegis í dag. Fjórir áhafnarmeðlimir úr Edmontonfluginu leituðu á sjúkrahús vegna óþæginda, höfuðverks og þreytueinkenna í dag. Þetta staðfestir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, í samtali við fréttastofu.

„Hún var tekin úr notkun í morgun, var skoðuð og fór aftur í loftið. Það er bara standard,“ segir Jens.

Jens sagði í samtali við fréttastofu fyrr í kvöld að uppákoma sem þessi tengist yfirleitt lélegu loftflæði í vélinni sem rekja megi til stíflu í loftræstikerfi. Eftir að flugfreyjurnar fjórar leituðu læknisaðstoðar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í dag var umrædd flugvél því tekin tímabundið úr rekstri.

Senda átti flugvélina í Evrópuflug í morgun en það gekk ekki eftir sökum skoðunarinnar, að sögn Jens. Vélin fór þess í stað til Kaupmannahafnar nú síðdegis og var á heimleið nú á ellefta tímanum.

Atvikið var ekki tilkynnt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa enda taldi Icelandair uppákomuna ekki uppfylla skilyrði til þess að þess þurfi. Jens tjáði fréttastofu fyrr í kvöld að atvikið væri þó ekki ósvipað því sem upp kom í sumar. Mannlíf greinir frá því að minnst þrjár flugfreyjur hafi verið óvinnufærar eftir að þær veiktust í vinnunni.


Tengdar fréttir

Fjórar flugfreyjur leituðu á heilbrigðisstofnun með höfuðverk og þreytueinkenni

Fjórir starfsmenn Icelandair, sem voru í áhöfn um borð í vél flugfélagsins sem kom til landsins frá Edmonton snemma í morgun, leitaði á sjúkrahús vegna óþæginda, höfuðverks og þreytueinkenna. Þetta staðfestir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, í samtali við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×