Hinn 24 ára Antonio Giovinazzi mun keyra fyrir lið Sauber í Formúlu 1 á næsta tímabili. Hann mun aka með reynsluboltanum Kimi Raikkonen.
Þetta þýðir að Marcus Ericsson mun missa sæti sitt í Formúlu 1 en hann mun verða þriðji ökumaður Sauber liðsins árið 2019.
Giovinazzi er í Ferrari akademíunni fyrir unga ökumenn og sannar ráðningin samstarfið milli Ferrari og Sauber, en svissneska liðið hefur notast við Ferrari vélar undanfarin 8 ár.
Gengið hefur mun betur hjá Ferrari að gefa sínum ungu ökumönnum sæti í Formúlu 1 heldur en hjá Mercedes.
Giovinazzi verður þó ekki að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni á næsta ári. Ítalinn keppti tvær keppnir í Formúlu 1 árið 2017 er hann hljóp í skarðið fyrir Pascal Wehrlein hjá Sauber.
„Þetta er algjör heiður,“ hafði Giovinazzi að segja um ráðninguna. Sérstaklega er Ítalinn hrifinn af því að fá tækifæri á að vinna með Kimi Raikkonen. 14 ára aldursmunur er á þessum verðandi liðsfélugum, því verður athyglisvert að fylgjast með Sauber liðinu á næsta tímabili.
Giovinazzi til Sauber á kostnað Ericsson
