Viðskipti innlent

Segir Keflavíkurflugvöll þann langversta í Evrópu sem bitni á afkomu flugfélaganna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Icelandair býður upp á nýja flugtíma frá og með næsta vori.
Icelandair býður upp á nýja flugtíma frá og með næsta vori. Vísir/Vilhelm
„Ég er þeirrar skoðunar, og ef maður horfir á þessar skiptistöðvar sem við erum að keppa við, þá er Keflavíkurflugvöllur langversti flugvöllur í Evrópu, það er ekkert hægt að neita því,“ segir Pétur J. Eiríksson, fyrrverandi yfirmaður hjá Icelandair til 28 ára. Það er hans mat að staðan á Keflavíkurflugvelli bitni á afkomu Icelandair og Wow Air.

Pétur skrifaði grein ummálið í Morgunblaðinuum helgina auk þess sem að hann ræddi um stöðu Keflavíkurflugvallar íMorgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Ég skrifaði þessa grein vegna þess að ég var farinn að hafa verulegar áhyggjur af ástandinu í flugstöð Leifs Eiríkssonar og áhrifum þess ástands á flugfélögin. Ég álit að ástandið sé þannig að það sé farið að grafa undan leiðakerfi flugfélaganna og þannig afkomu þeirra,“ sagði Pétur en afkoma bæði Icelandair og Wow hefur farið versnandi að undanförnu líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

Fór Pétur yfir það viðskiptamódel sem Icelandair og Wow byggja starfsemi sína á en það er svokallað skiptistöðvakerfi sem tengir saman flugleiðir á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Miðjan í kerfinu er Keflavíkurflugvöllur og segir Pétur að til þess að slíkt kerfi virki sem skyldi þurfi allt að ganga upp, litlir sem engir hnökrar megi vera á keðjunni.

„Því miður er það þannig að með okkar miðju, með flugstöð Leifs Eiríkssonar, að hún er að þjóna farþegum mjög illa, vegna þrengslna og ýmis konar aðstæðna sem núna kemur niður á flugfélögunum þegar þeir [farþegar innskot blm.] upplifa flugstöðina sem slæma og þar af leiðandi þjónustu flugfélaganna sem slæma.“

Pétur J. Eiríksson starfaði um árabil hjá Flugleiðum og Icelandair.Fréttablaðið/Vilhelm.

Ekki skemmtilegt upplifun fyrir farþega að fara úr flugvél í rútu

Segir hann að Isavia hafi gert afdrífarik mistök þegar ákveðið hafi verið að fjölga svokölluðum útistæðum í stað þess að leggja áherslu á rampa eða rana sem tengi flugvélar beint við flugstöðina. Útistæðin gera það að verkum að farþegar þurfa að stíga út úr flugvélunum og upp í rútu sem keyrir þá að flugstöðinni.

„Þið getið ímyndað ykkur hvernig ástandið hefur verið í morgun í þessu roki og rigningu. Að fara út úr flugvél út úr stiga, út í þetta veður, út í rútu og bíða þar þangað til að rútan fyllist. Keyra síðan inn í flugstöð sem er allt of lítil. Olnboga sig þar í gegnum rýmið til þess að fara í langa biðröð í vegabréfaskoðun í stað þess að eiga kannski gæðastund yfir kaffibolla, þá er að hypja sig aftur út að hliði, bíða þar eftir rútu, bíða í rútu og aftur út í óveðrið til þess að komast um borð í næstu flugvél,“ sagði Pétur.

Ljóst var á máli hans að Pétur átti einkum við svokallaða tengifarþega sem oftar en ekki yfirgefa ekki flugstöðina er þeir bíða eftir flugi á lokaáfangastað. Að mati hans væri ljóst að flugfélögin, í það minnsta Icelandair, væru farin að missa sína bestu viðskiptavini og rekja mætti það til aðstæðna á Keflavíkurflugvelli.



„Bestu viðskiptavinir flugfélaga eru viðskiptavinir sem koma aftur og aftur vegna þess að þeim líkar þjónusta flugfélagsins. Þeir vita það að þeir fá hnökralausa þjónustu. Flugfélagið flýgur þangað sem þeir vilja fara, á þeim degi og á þeim tíma sem þeir vilja ferðast og þeir komast þangað á tíma. Þeir meta stundvísi. Ástandið í Leifsstöð er orðið þannig að Icelandair getur ekki lengur boðið upp á hnökralausa þjónustu.“ 

Keflavíkurflugvöllur.Fréttablaðið/Anton Brink.

Var eitt sinn verðlaunaflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur var nýverið valinn sautjándi versti flugvöllur Evrópu með tilliti til stundvísi flugáætlana, þjónustu, almenns rekstrar, og ánægju viðskiptavina samkvæmt úttekt ferðaþjónustuvefsins AirHelp. Slíkar fregnir koma Pétri ekki á óvart sem tekur enn dýpra í árinni en úttekt AirHelp.

„Fyrir nokkrum árum síðan var Keflavík margverðlaunuð fyrir að vera besta skiptistöð í Evrópu. Vera einn besti og þægilegasti flugvöllur í Evrópu. Við höfum séð núna undanfarin ár hvernig vellinum hefur verið að hraka. Ég er þeirrar skoðunar, og ef maður horfir á þessar skiptistöðvar sem við erum að keppa við, þá er Keflavíkurflugvöllur langversti flugvöllur í Evrópu, það er ekkert hægt að neita því. Þá er ég að miða við skipistöðvar og alþjóðaflugvelli,“ sagði Pétur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×