Bandaríski fatarisinn Michael Kors er sagður vera í viðræðum um kaup á tískuvöruframleiðandanum Versace. Áætlað er að söluverðið muni nema um 2 milljörðum bandaríkjadala, um 220 milljörðum króna.
Ítalska dagblaðið Corriere della Sera greindi frá sölunni í morgun en Versace og Blackstone, sem á 20 prósent hlut í ítalska fatarisanum, hafa ekki viljað tjá sig um málið.
Versace fjölskyldan á ennþá 80 prósenta hlut í samnefndu fyrirtæki, sem stofnað var af Gianni Versace fyrir nákvæmlega 40 árum. Verði af sölunni yrðu þetta önnur risakaup Michael Kors á einu ári, en fyrirtækið keypti skóframleiðandann Jimmy Choo í fyrra fyrir um 900 milljónir dala.
Listrænn stjórnandi og varaforseti Versace, Donatella Versace, hefur boðið til starfsmannafundar í Mílanó á morgun, að sögn Corriere della Sera. Bróðir hennar, stofnandinn Gianni Versace, var myrtur árið 1997 í Miami.

