Snúin staða er uppi í sænskum stjórnmálum eftir kosningarnar þar sem hvorug hefðbundnu blokkanna náði meirihluta. Rauðgræna blokkinn tryggði sér 144 þingsæti, bandalag borgaralegu flokkanna 143 og Svíþjóðardemókratar 62.
Valdamikið embætti
Valdabaráttan og þreifingar fulltrúa flokkanna hafa að mestu farið fram á bakvið tjöldin eftir kosningar, en nú verður breyting á. Embætti þingforseta er valdamikið í Svíþjóð, en auk þess að stýra dagskrá þingsins tilnefnir hann forsætisráðherra sem þingið greiðir svo atkvæði um. Þingforsetanum er ætlað að vera hafinn yfir flokkapólitík, en stóru flokkarnir líta á það sem kost að hafa sinn mann í stóli þingforseta við stjórnarmyndun.Aðrir flokkar hafa hafnað því að starfa með Svíþjóðardemókrötum, en flokkurinn hefur sagst ætla að greiða atkvæða með þingforsetaefni borgaralegu flokkanna. Má því teljast líklegt að Andreas Norlén, þingmaður hægriflokksins Moderaterna, verði fyrir valinu sem næsti þingforseti.
Kosið um framtíð Löfven
Fyrsta mál á dagskrá nýs þingforseta verður að ákvarða dagsetningu um hvenær þingið skuli greiða atkvæði um forsætisráðherra landsins. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram hafi forsætisráðherrann, í þessu tilviki Stefan Löfven, ekki sagt af sér embætti eftir kosningar.Borgaralegu flokkarnir hafa þegar lýst yfir að þeir vilji greiða atkvæði um framtíð Löfven í embætti þegar á morgun. Greiði meirihluti 349 þingmanna þingsins atkvæði gegn Löfven verður hann að víkja. Þar sem borgaralegu flokkarnir eru með einum þingmanni færri en rauðgrænu flokkarnir eru þeir háðir Svíþjóðardemókrötum að koma Löfven frá.
Ræðir við leiðtoga
Verði Löfven látinn víkja þarf nýr þingforseti að ræða við leiðtoga flokkanna á þingi til að komast að því hvernig landið liggur. Hann tilnefnir svo forsætisráðherra, mann sem hann telur líklegan til að þingið samþykki sem næsta forsætisráðherra. Þingið greiðir svo atkvæði um viðkomandi, en takist ekki að ná meirihluta ræðir þingforsetinn við leiðtoga flokkanna á ný.Takist þinginu ekki að ná saman um forsætisráðherra í fjórum tilraunum, skal boða til nýrra kosninga. Ljóst er að nokkrar vikur gætu liðið áður en niðurstaða fæst hver muni stýra Svíþjóð næstu fjögur árin.