Erlent

Hvetur leiðtoga Írans til þess að líta í spegil

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
NIkki Haley er fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá SÞ.
NIkki Haley er fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá SÞ. Vísir/Getty
Nikki Haley, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum hvetur leiðtoga Írans til þess að „líta í spegil“ vilji þeir komast að því hverjar séu ástæðurnar sem lágu að baki mannskæðri skotárás á hersýningu í gær.

25 létust og fjölmargir særðust er árásarmenn hófu skothríð í miðri hersýningu í borginni Ahvaz í suðvesturhluta landsins. Yngsta fórnarlambið var aðeins fjögurra ára gamalt.

Hassan Rouhani, forseti Írans, brást ókvæða við árásinni og sagði hann hegðun yfirvalda í Bandaríkjunum og „leppríkja þeirra“ hafa gert það að verkum að árásin var framin. Sagði hann raunar að yfirvöld í Bandaríkjunum væru yfirgangsseggir með tengsl við hópana sem lýst hafa yfir ábyrgð á árásinni. Bæði ISIS og hópur sem berst gegn stjórn Írans hafa lýst yfir ábyrgð.

Bandaríkin hafa hins vegar alfarið neitað ásökunum Rouhani og í viðtali við CNN sagði Haley að Rouhani ætti að líta sjálfum sér nær áður en hann færi að saka aðra um að bera ábyrgð á ódæðinu.

„Hann hefur kúgað sitt fólk í lengri tíma og hann þarf að líta inn á við ef hann vill átta sig á því hvaðan andstaðan kemur,“ sagði Haley. „Hann getur kennt okkur um eins og hann vill. Það sem hann þarf hins vegar að gera er að líta í spegil“.

Rouhani er væntanlegur til Bandaríkjanna í næstu viku til þess að verða viðstaddur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.


Tengdar fréttir

Gagnrýnir Bandaríkin eftir mannskæða skotárás

Hassan Rouhani, forseti Írans, hefur gagnrýnt bandarísk stjórnvöld harðlega eftir mannskæða skotárás sem gerð var á hersýningu í borginni Ahvaz í gær. Þetta kemur fram á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×