Innlent

Ráðherra ætlar ekki að áfrýja dóminum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ætlar ekki að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ætlar ekki að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Vísir/Eyþór
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ætlar ekki að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem í byrjun vikunnar felldi úr gildi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að hafna umsókn Ölmu Gunnarsdóttur, háls-nef-og eyrnalæknis, um aðild að rammasamningi við sérgreinalækna. Íslenska ríkinu var gert að greiða Ölmu 1,8 milljón krónur í málskostnað.

Sjá nánar: Málið snýst ekki bara um mig og mín réttindi

Framúrkeyrsla hefur verið á fjárlagalið samningsins og er það ástæðan fyrir því að þrír heilbrigðisráðherrar í röð hafa tekið þá ákvörðun að ekki yrðu teknir fleiri sérfræðilæknar inn á samninginn.

Eftir að Svandís hafði gaumgæft niðurstöðu dómsins með ríkislögmanni og metið kosti og galla þess að áfrýja ákvað hún að réttast væri að áfrýja ekki dóminum. Svandís gerði grein fyrir ákvörðun sinni í útvarpsþættinum Vikulokunum á Rás 1. Hún sagði að það væri mikilvægt fyrir alla sem ættu í hlut að fá niðurstöðu í málinu. Það væri ekki málinu til framdráttar að standa í frekari málaferlum.

„Dómurinn er vel ígrundaður og niðurstaðan er leiðbeining. Hann undirstrikar mikilvægi þess að þetta fyrirkomulag verði endurskoðað, ekki bara samningurinn eins og hann er heldur líka framkvæmd hans og þá í samræmi við ábendingar sem viðhöfum í raun frá Ríkisendurskoðun um það að ríkið, sem greiðir þjónustuna, hafi frumkvæði að því og skoðun á því hvaða heilbrigðisþjónusta er keypt, í hvaða magni og af hverjum. Niðurstaða dómsins um að faglegt mat fari fram á hverri umsókn fyrir sig er í raun og veru lykilstef sem er mjög mikilvægt að hafa í forgrunni þegar næstu ákvarðanir eru teknar,“ sagði Svandís.

Svandís sagði jafnframt að sérfræðilæknar eigi ekki einhliða rétt á samningi og beri að taka afstöðu til þeirra umsókna í samræmi við þær forsendur sem fram komu í dóminum og gera faglegt mat á hverjum og einum.

Hún segist hafa horft til þess að fjárheimildir Alþingis séu uppurnar og að það verði að reisa skorður við því að það haldi áfram að fara út úr ríkissjóði umfram ákvörðun Alþingis. Það sama eigi við um ákvarðanir forvera hennar í starfi, Kristjáns Þórs Júlíussonar og Óttars Proppé.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×