Ásmundur Jóhannsson fékk heilablóðfall í ágúst í fyrra. Hann er á áttræðisaldri en var við góða heilsu og enn á vinnumarkaði þegar hann veiktist. Rúna Didriksen, eiginkona Ásmundar vakti athygli á því á Facebook síðu sinni í gær að Ásmundi hafi ítrekað verið synjað um akstursþjónustu. Um daginn hafi hann til að mynda þurft að greiða hátt í 14 þúsund krónur í leigubíl til að sækja jarðarför.
„Hann getur ekki verið heima vegna þess að hann þarf það mikla umönnun og eftir að hafa verið á spítölum og á Grensás og á Vífilsstöðum, þá er hann kominn hérna á Hrafnistu,“ segir Rúna.
Til að eiga rétt á að nýta ferðaþjónustu fatlaðra þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og bendir fátt til annars en að Ásmundur uppfylli skilyrði. Þeir sem eiga rétt á akstursþjónustu samkvæmt öðrum reglum eiga aftur á móti ekki rétt á þjónustunni né þeir sem hafa fengið styrk til bifreiðakaupa frá Tryggingastofnun. Hjúkrunarheimili útvega akstur ef ferðin tengist heilbrigðisþjónustu en ekki að öðru leyti.

Fengið lítil viðbrögð
Aldur hefur ekki áhrif á rétt til notkunar ferðaþjónustu fatlaðra en Rúna kveðst engin skýr svör hafa fengið við því á hvaða forsendum Ásmundi sé synjað. „Það eru ekki gefnar upp neinar forsendur. Það er bara; „nei, við gerum þetta ekki,“ segir Rúna.Hún kveðst hafa vakið athygli borgarfulltrúa á málinu en hafi fengið lítil viðbrögð. „Þetta finnst manni vera mál sem er bara hreint út sagt ótrúlegt. Að maður sem er útsvarsgreiðandi í Reykjavík en með lögheimili heima hjá sér en er búsettur uppi á Hrafnistu, skuli ekki hafa rétt á því að nota þjónustu fatlaðra. Maður spyr sig bara að því hverra hagsmuna er verið að gæta þarna,“ segir Rúna.