Knattspyrnusamband Íslands hefur úrskurðað um leik Hugins og Völsungs í 2. deild karla sem átti að vera endurtekinn í gær en fór aldrei fram.
Á úrslitasíðu 2. deildar karla má sjá að úrslitin hafa verið færð inn. Völsungi hefur verið dæmdur 3-0 sigur í leiknum. Völsungur er þar með kominn með 40 stig og á því ennþá möguleika á sæti í Inkasso deildinni.
Útskýringuna á úrslitum leiksins má einnig finna á leikskýrslunni á heimasíður KSÍ. Hún er: „Huginn mætti ekki til leiks.“
Leikurinn var færður af Seyðisfjarðarvelli yfir á Fellavöll á leikdegi en leikurinn sem var dæmdur ógildur fór fram á Seyðisfjarðarvelli.
Leikmenn Völsungs og dómarar leiksins mættu á Fellavöll en leikmenn Hugins biðu hinsvegar eftir þeim á Seyðisfjarðarvelli. Það varð því ekkert að leiknum og nú er komið í ljós að Huginn var í órétti og telst hafa tapað leiknum 3-0.
