Innlent

Viðskiptum með íbúðir í borginni hefur fjölgað um 8 prósent á árinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúðaverð er nú sagt hækka meira á landsbyggðinni en í höfuðborginni samkvæmt tölum Íbúðalánasjóðs.
Íbúðaverð er nú sagt hækka meira á landsbyggðinni en í höfuðborginni samkvæmt tölum Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður
Íbúðaviðskiptum á almennum markaði á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 8% á fyrstu átta mánuðum ársins og um 3% á landsvísu miðað við sama tíma í fyrra. Tæpur þriðjungur íbúðalána var óverðtryggður í fyrra samkvæmt tölum Íbúðalánasjóðs.

Verð á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 4,1% undanfarið ár samkvæmt vísitölu íbúðaverðs sem gefin er út af Þjóðskrá Íslands og um 3,2% ef miðað er við vísitölu paraðra íbúðaviðskipta sem er reiknuð af hagdeild Íbúðalánasjóðs. Íbúðaverð hækkar um þessar mundir meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu en uppsöfnuð hækkun frá árinu 2012 er þó enn sem komið er meiri á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni, að því er segir í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Verðtryggð íbúðalán eru enn mun vinsælli en óverðtryggð. Í fyrra var 31% allra nýrra íbúðalána óverðtryggt og 69% verðtryggð. Á undanförnum fimm árum hafa óverðtryggð lán aldrei náð því að vera meira en helmingur nýrra íbúðalána innan mánaðar.

Þrátt fyrir þetta hefur útistandandi fjárhæð óverðtryggðra íbúðalána vaxið meira en verðtryggðra lána undanfarin fimm ár enda hafa verið meiri uppgreiðslur á verðtryggðum íbúðalánum en óverðtryggðum.

Um miðjan september hófu vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum að hækka hjá nokkrum lánastofnunum. Um er að ræða víðtækustu vaxtahækkanir óverðtryggðra lána, innan mánaðar, síðan árið 2015. Tilkynntar vaxtahækkanir voru á bilinu 0,1-0,4 prósentustig. Hæstu og lægstu vextir óverðtryggðra íbúðalána á markaðnum í heild hafa þó ekki breyst síðan í nóvember 2017.

Ætla má að um miðbik ársins hafi verið á bilinu 28.500-31.000 heimili á leigumarkaði á landinu öllu samkvæmt nýju mati leigumarkaðsdeildar Íbúðalánasjóðs. Fjöldi heimila á leigumarkaði hér á landi samsvarar fjölda allra íbúða í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×