Viðskipti innlent

Veiking krónunnar: „Skiljanlegt að menn spyrji sig hvað sé í gangi“

Birgir Olgeirsson skrifar
Krónan hefur veikst talsvert undanfarið en hagfræðingum hefur ekki tekist að finna út hvaða skýringar eru að baki.
Krónan hefur veikst talsvert undanfarið en hagfræðingum hefur ekki tekist að finna út hvaða skýringar eru að baki. Vísir
Íslenska krónan hefur veikst um tæp fimm prósent gagnvart evru á síðastliðnum mánuði og tæp átta prósent á síðastliðnu ári. Á síðastliðnum tveimur dögum hefur veikingin numið tveimur prósentum en aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir enga einhlíta skýringu á þessari veikingu. Mögulega sé markaðurinn að leita jafnvægis og engin hættumerki að sjá að svo stöddu.

„Það er skiljanlegt að menn spyrji sig hvað sé í gangi,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í samtali við Vísi um málið.

„Staðreyndin er sú að það hefur verið svolítið erfitt að festa fingur á einni einhlítri skýringu á þessari hreyfingu núna. Ég held að þetta hafi verið losun á spennu sem hefur verið að byggjast upp í töluverðan tíma,“ segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki Bentssson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

Óraunhæfar væntingar um áframhaldandi vöxt

Vöxtur á útflutningstekjum Íslands hefur verið afar mikill undanfarin ár samhliða fáheyrðum vexti í ferðaþjónustunni. Jón Bjarki er á því að væntingar um að vöxturinn á útflutningstekjunum myndi halda áfram af krafti hafi verið eilítið óraunhæfar miðað við hver niðurstaðan varð.

„Sem er svolítið spegilmyndin af því sem er að gerast núna. Þegar væntingar eru um styrkingu eða gjaldeyrisinnflæði þá halda væntanlegir kaupendur gjaldeyris, þeir sem þurfa að kaupa gjaldeyri til að kaupa eignir eða flytja inn vörur, því í lágmarki til að fá hagstæðara verð á gjaldeyrinum og þeir sem selja bíða ekki boðanna því þeir eru svo hræddir um að fá minna fyrir gjaldeyrinn eftir því sem tíminn líður,“ segir Jón Bjarki.

Ástandið sé hins vegar öfugt farið í dag þar sem krónan hefur veikst í tiltölulega lítill veltu. „Það er ekki svoleiðis að það séu einhverjar ógurlegar fjárhæðir að fara um borð gjaldeyrismiðlara. Það vantar svolítið aðra hliðina á þennan markað, hann er grunnur og þeir sem hafa gjaldeyri og þeir sem hafa verið duglegir að selja gjaldeyri, þeir halda svolítið að sér höndum núna.“

Hljóðlátt gjaldþrot hjálpaði ekki til við þróun gengis krónunnar að sögn aðalhagfræðings Íslandsbanka. Fréttablaðið/Haraldur

Hljóðlátt gjaldþrot hjálpaði ekki til

Hann segir hagfræðinga ekki hafa náð að benda á einhverjar tilteknar fjármagnshreyfingar, fréttir eða eina afgerandi ástæðu fyrir þessari veikingu.

„Það virðist vera svolítið framhald á þessari breytingu sem varð í september. Þá skapaðist óvissa um hvernig ferðaþjónustan myndi fullorðnast. Hvernig henni myndi ganga að fara úr hratt vaxandi geira í svona fullorðinn útflutningsgeira. Svo komu fréttir af hugsanlegum fjárhagsvandræðum hjá einu flugfélagi en á meðan fór annað á hausinn svo lítið bar á. Það hjálpaði ekki við með stemninguna,“ segir Jón Bjarki.

Á móti sé ekkert í grunnstoðum gjaldeyrisflæðisins, þeim efnahagsstoðum sem gjaldeyrisstraumarnir byggja á, sem sé að snúa til hins verra.

„Við erum enn þá með viðskiptaafgang, við eigum myndarlegan gjaldeyrisforða og skuldastaðan þjóðarbúsins almennt er orðin miklu betri en hún var. Ég vil eftir sem áður trúa því að hér sé um aðlögun að ræða og einhverskonar leit markaðarins að jafnvægi nú þegar gjaldeyristekjurnar eru ekki að vaxa með ógnarhraða, heldur en eitthvað sérstakt hættumerki eða byrjunin á einhverju umtalsverðu eða einhverskonar efnahagsþrengingum.“


Tengdar fréttir

Forstjóri Primera kaupir ferðaskrifstofur

Félag í eigu forstjóra Primera Air hefur keypt allar ferðaskrifstofur Primera Air samstæðunnar og tekið yfir skuldir við Arion banka. Primera Air sótti um greiðslustöðvun í byrjun þessa mánaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×