Lögreglan í Svíþjóð hefur borið kennsl á líkamshluta sem fundust í ánni Kalix í norðurhluta landsins í gær. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í dag en lögreglan vill ekkert gefa upp um hver maðurinn er þar sem ættingjar hans hafa ekki verið upplýstir um málið.
Í frétt á vef SVT segir að lögreglan vilji þannig hvorki gefa upp aldur mannsins né hvaðan hann sé en greint hefur verið frá því í sænskum fjölmiðlum að um ungan mann sé að ræða.
Lögreglan sagði á blaðamannafundinum að henni hefðu borist ábendingar frá almenningi vegna málsins en hún óskaði áfram eftir því að hver sá sem telur sig búa yfir upplýsingum um málið gefi sig fram.
Grunur leikur á að manninum hafi verið ráðinn bani en lík hans hafði verið bútað niður. Þeir líkamshlutar sem fundust í gær voru höfuð, fótleggir og handleggir en búkurinn er enn ófundinn.
Það var sjötugur maður sem labbaði fram á líkamshlutana þegar hann var á gangi meðfram ánni Kalix í gærmorgun með hund sinn. Hann kom auga á líkamshlutana á árbakkanum.
„Þetta er það versta sem ég hef séð. Ég vil bara gleyma því sem ég sá,“ sagði maðurinn í samtali við Aftonbladet.
Á milli tuttugu og þrjátíu lögreglumenn vinna nú að rannsókn málsins.
Hafa borið kennsl á líkið sem fannst niðurbútað við árbakka Kalix

Tengdar fréttir

Fundu líkamshluta við árbakka í norðurhluta Svíþjóðar
Lögregla í Svíþjóð rannsakar nú andlát manns eftir að höfuð, fótleggir og handleggir fundust í ánni Kalix í norðurhluta landsins.