Fótbolti

Pochettino: Vorum miklu, miklu betri en erum nánast úr leik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hundfúll í Hollandi
Hundfúll í Hollandi vísir/getty
Tottenham fór illa að ráði sínu í Eindhoven í gær þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við PSV í B-riðli Meistaradeildar Evrópu. Lundúnarliðið því aðeins með eitt stig eftir fyrstu þrjá leikina.

Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham, var ómyrkur í máli í leikslok og horfir ekki björtum augum á framhaldið.

„Þetta er nánast búið. Við sjáum til hvað gerist hjá Barca og Inter en að vera með eitt stig eftir þrjá leiki gerir þetta mjög erfitt fyrir okkur,“ sagði Pochettino.

Leikur Barcelona og Inter endaði með 2-0 sigri Barca sem gefur Tottenham von en Tottenham á heimaleiki eftir gegn PSV og Inter áður en liðið heimsækir Nou Camp í lokaumferðinni.

Pochettino var hundfúll með markaskorun Tottenham í gær.

„Það er flókið að meta þennan leik. Það var margt sem gerðist en við þurfum að skilja hvernig fótboltinn virkar. Þú verður að drepa leikinn þegar þú hefur tækifæri til og ef það gerist ekki getur maður bara sjálfum sér um kennt.“

„Við höfðum fullkomna stjórn á leiknum en þetta snýst um að skora fleiri mörk en andstæðingurinn og við vorum ekki nógu góðir að klára færin okkar. Það endar með jafntefli sem gerir okkur nánast ókleift að komast í útsláttarkeppnina.“

„Það er auðvelt að ætla að kenna dómaranum um en ég held að við verðum að líta í eigin barm. Við vorum miklu, miklu betri en þeir en ef maður drepur ekki leikinn í 2-1 er andstæðingurinn alltaf á lífi,“ sagði Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×