New York Times hefur eftir heimildarmönnum sínum að Kelly hafi gripið í skyrtukraga Lewandowski og reynt að vísa honum úr vesturálmu Hvíta hússins. Lewandowski hafi ekki brugðist við með ofbeldi á móti. Þegar leyniþjónustumenn gripu inn í hafi báðir menn samþykkt að halda hvor sína leið.
Uppákoman á að hafa átt sér stað eftir að bæði Kelly og Lewandowski sátu á forsetaskrifstofunni með Trump. Lewandowski var fyrsti kosningastjóri Trump en er nú lýst sem óformlegum ráðgjafa forsetans.
Kelly á að hafa gagnrýnt Lewandowski við Trump fyrir að græða á tá og fingri af forsetanum með störfum sínum fyrir pólitíska aðgerðanefnd sem vinnur að endurkjöri Trump. Þá hafi starfsmannastjórinn verið ósáttur við að Lewandowski skuli hafa gagnrýnt sig í sjónvarpsviðtölum fyrir hvernig hann tók á starfsmanni Hvíta hússins sem hafði verið sakaður um heimilisofbeldi.

Hvorugur mannanna né Hvíta húsið vildi tjá sig um uppákomuna við bandaríska blaðið. Lewandowski hittir Trump forseta enn reglulega, meðal annars í Hvíta húsinu. Starfsmenn þess eru hins vegar sagðir reyna að tryggja að þeir Kelly rekist ekki hvor á annan.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem greint hefur verið frá átökum og ágreiningi sem Kelly á að hafa átt þátt í. Þannig var hann sagður hafa lent í stympingum við kínverskan embættismann í heimsókn Trump til Kína í fyrra.
Þá eiga hann og John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, að hafa öskrað hvor á annan vegna innflytjendamála eftir fund með forsetanum í síðustu viku.