Innlent

Grunur um að konan sé ekki móðir barnanna og sýni tekin á staðnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan var handtekin í Hafnarfirði.
Konan var handtekin í Hafnarfirði. Vísir/Vilhelm
Afganskri konu, sem handtekin var í Hafnarfirði í dag fyrir tilstilli barnaverndaryfirvalda, hefur verið sleppt úr haldi lögreglu. Þetta staðfestir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Grunsemdir þess efnis að konan sé ekki móðir fimm barna á heimilinu komu upp í dag og voru sýni til að skera úr um það tekin á staðnum.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu í dag en í frétt blaðsins kom fram að börnin væru á aldrinum 10-17 ára. Þá tjáði Skúli blaðinu að konan hefði verið handtekin vegna gruns um brot gegn útlendingalögum.

Skúli segir í samtali við Vísi að fjögur barnanna séu komin í umsjá barnaverndaryfirvalda. Það elsta, piltur sem er að verða átján ára, hafi þó orðið eftir á heimilinu. Að sögn Skúla komu konan og börnin, sem einnig eru afgönsk, hingað til lands fyrr á árinu og eru með dvalarleyfi.

Þá segir Skúli að verkefnið hafi snúist um velferð barnanna en á staðnum fundust gögn og munir sem leiddu til handtöku konunnar. Þá hafi komið upp grunsemdir um að konan væri ekki móðir barnanna og voru sýni til að skera úr um það tekin á staðnum. Skúli segir að einhvern tíma muni taka að fá niðurstöður úr sýnatökunni. Rannsókn málsins heldur áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×