Innlent

Vél Wow-air lenti heilu og höldnu eftir bilun

Kjartan Kjartansson skrifar
Flugvélar Wow air á Keflavíkurflugvelli. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Flugvélar Wow air á Keflavíkurflugvelli. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Vilhelm
Öryggislending flugvélar Wow air á Keflavíkurflugvelli gekk að óskum, að sögn upplýsingafulltrúa Isavia. Vélin var á leiðinni til Bandaríkjanna þegar henni var snúið við vegna bilunar. Önnur vél flutti farþegana áfram skömmu eftir klukkan sex.

Vélinni var snúið við vegna bilunar í hreyfli skömmu eftir flugtak upp úr klukkan fjögur síðdegis í dag. Hættustigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli og björgunarsveitarfólk var sett í viðbragðsstöðu en útkallið var síðar afturkallað.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að lending teljist vera svonefnd öryggislending. Vélin lenti heilu og höldnu um klukkan hálf fimm.

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa Wow air, var um minniháttar bilun að ræða. Önnur vél var kölluð til og tók hún á loft til Baltimore í Bandaríkjunum klukkan 18:06 samkvæmt vefsíðu Isavia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×